154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og segja það hér að hann er á mjög áhugaverðum stað í sínum hugleiðingum hér. Ég get tekið undir margt sem fram kom í hans ræðu. Ég held að það sé mjög áhugaverð nálgun sem hv. þingmaður er að velta fyrir sér, innan ramma og utan ramma, sem kemur nú kannski að áhugamáli sem er að verða okkar beggja sem heitir endurmat útgjalda og ég held að sé mjög þarft fyrir okkur í fjárlaganefnd að huga að: Í hvað eru fjármunirnir í raun og veru að fara sem við erum að útdeila úr nefndinni og eru þeir að fara í þau verkefni sem við í raun og veru erum að setja þá í?

Ég vil sömuleiðis þakka hv. þingmanni fyrir að fara hér nokkrum orðum um mál sem ég hef nú verið að berjast fyrir og benda á úr þessum ræðustól ansi oft sem er misvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og það byggðaójafnvægi sem við búum við í dag. Mér fannst gott að heyra hv. þingmann koma inn á það og benda á þetta misvægi.

Aðeins varðandi Byggðastofnun og hennar hlutverk. Ég er alveg sammála því. Í mínum huga skiptir Byggðastofnun og hennar hlutverk verulegu máli sem er nú kannski að stórum hluta að afla upplýsinga og koma með upplýsingar fyrir okkur sem hér sitjum til að taka ákvarðanir. Ég held að við séum í betri aðstöðu heldur en kannski Byggðastofnun til þess — og aðeins að fá vinkil á það frá hv. þingmanni.